Lagði upp mark í fyrsta leiknum

Rúnar Már Sigurjónsson í landsleik.
Rúnar Már Sigurjónsson í landsleik. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Rúnar Már Sigurjónsson landsliðsmaður í knattspyrnu var fljótur að láta til sín taka í fyrsta leik sínum með rúmenska meistaraliðinu CFR Cluj í kvöld.

Rúnar kom til félagsins fyrir stuttu frá Astana í Kasakstan og kom inn í leikmannahópinn í fyrsta sinn í kvöld, fyrir heimaleik gegn Politehnica Iasi.

Hann hóf leikinn á varamannabekknum en var skipt inn á eftir 76 mínútna leik. Aðeins tíu mínútum síðar lagði hann upp mark fyrir Ciprian Ioan Deac og með því var sigur CFR Cluj innsiglaður, 4:0.

CFR og FCSB, sem hét áður Steaua, eru jöfn og efst á toppi deildarinnar með 60 stig, sjö stigum á undan Universitatea Craiova, en þessi þrjú lið eru í nokkrum sérflokki. Þrjár umferðir eru eftir af 1. deildinni en síðan tekur við úrslitakeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert