Leipzig tapaði dýrmætum stigum á heimavelli í toppbaráttu þýsku efstu deildarinnar í knattspyrnu í dag er liðið gerði 1:1-jafntefli gegn Frankfurt. Þýskalandsmeistarar Bayern München unnu 3:1-sigur á Werder Bremen í gær og eru nú með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar.
Leipzig féll úr leik í Meistaradeild Evrópu í vikunni er liðið tapaði gegn Englandsmeisturum Liverpool og virtust Þjóðverjarnir ekki alveg vera búnir að hrista það af sér í dag. Þeir náðu þó forystunni er Emil Forsberg skoraði strax í upphafi síðari hálfleiks en Daichi Kamada jafnaði metin stundarfjórðungi síðar og nældi þar með í stig fyrir gestina.
Leipzig er með 54 stig í öðru sæti eftir 25 umferðir, sex stigum á undan Wolfsburg og tíu á undan Frankfurt. Aftur á móti eru sem fyrr segir nú fjögur stig í topplið Bayern.