Zlatan Ibrahimovic snýr aftur í leikmannahóp ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan á fimmtudaginn kemur þegar liðið mætir Manchester United í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í Mílanó.
Það er ítalski miðillinn Tuttosport sem greinir frá þessu en Zlatan, sem er 39 ára gamall, var ekki með Milan í fyrri leik liðanna í Manchester hinn 11. mars sem lauk með 1:1-jafntefli.
Zlatan hefur verið að glíma við meiðsli á tímabilinu en hann lék síðast með AC Milan í 2:1-sigri gegn Roma í ítölsku A-deildinni í lok febrúar.
Svíinn stóri og stæðilegi hefur byrjað þrettán leiki í ítölsku A-deildinni þar sem hann hefur skorað fjórtán mörk.
Tuttosport greinir frá því að Zlatan hafi snúið aftur til æfinga hjá ítalska félaginu um helgina og að vonir standi til þess að hann geti tekið einhvern þátt í leiknum gegn sínu fyrrverandi félagi.