Ungstirnið Yunus Musah, vængmaður Valencia á Spáni, hefur tekið ákvörðun um að spila með bandaríska landsliðinu í knattspyrnu. Che Adams, sóknarmaður Southampton á Englandi, hefur þá ákveðið að þekkjast boð Skotlands um að spila með landsliði þess.
Báðir eiga þeir landsleiki fyrir yngri landslið Englands. Musah, sem er aðeins 18 ára gamall, á að baki 32 landsleiki með U15, U16, U17 og U18-ára landsliði Englands en var á síðasta ári valinn í A-landslið Bandaríkjanna og hefur spilað tvo vináttulandsleiki fyrir liðið.
Hann var því enn gjaldgengur í landslið Englands og Bandaríkjanna, en sömuleiðis gat hann valið um að spila fyrir landslið Gana og Ítalíu. Foreldrar Musah eru báðir frá Gana en hann flutti ungur að árum frá Gana til Ítalíu. Níu ára gamall flutti hann svo til Englands og gekk til liðs við Arsenal. Þaðan fór hann til Valencia árið 2019.
Tengslin við Bandaríkin eru minnst, þar sem hann fæddist á meðan móðir hans var í fríi þar í landi. Þrátt fyrir það hefur hann tekið þá ákvörðun um að spila fyrir bandaríska landsliðið, þar sem knattspyrnusambandið þar í landi gekk einfaldlega harðast á eftir honum.
Adams á tvo landsleiki að baki fyrir enska u20-ára landsliðið en hefur nú tekið ákvörðun um að skipta um ríkisfang. Amma hans í móðurlegg er frá Skotlandi og er Adams því gjaldgengur í skoska landsliðið.
Árið 2017 reyndi Alex McLeish, þáverandi þjálfari landsliðsins, að fá Adams til þess að skipta um ríkisfang en hann hafnaði því þá. Nú heillast hann hins vegar af möguleikanum á því að spila á EM með Skotlandi í sumar og er búist við því að hann verði valinn í landsliðshóp liðsins í dag.
Hefur Adams rætt við Steve Clarke, núverandi þjálfara landsliðsins, að undanförnu á jákvæðum nótum og hefur Stuart Armstrong, liðsfélagi Adams hjá Southampton og landsliðsmaður Skotlands, einnig haft sitt að segja með því að reyna að sannfæra hann um að taka þessa ákvörðun.