Öruggt hjá stórliðunum

Leikmenn Manchester City fagna þægilegum sigri í kvöld.
Leikmenn Manchester City fagna þægilegum sigri í kvöld. AFP

Manchester City er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu en liðið vann öruggan sigur gegn Borussia Mönchengladbach í síðari leik liðanna á Puskás Aréna í Búdapest í Ungverjalandi í kvöld.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Manchester City en það voru þeir Kevin De Bruyne og Ilkay Gündogan sem skoruðu hjá City í fyrri hálfleik.

De Bruyne kom City yfir strax á 13. mínútu með frábæru vinstrifótarskoti af vítaboganum sem small í þverslánni og inn.

Gündogan bætti svo við öðru marki City fimm mínútum síðar eftir laglegan undirbúning Phil Fodens.

Foden sendi þá Gündogan í gegn sem kláraði snyrtilega fram hjá Yann Sommer í marki Mönchengladbach.

City vann fyrri leikinn 2:0 en hann fór einnig fram í Ungverjalandi og viðureignina því samanlagt 4:0.

Karim Benzema fagnar marki sínu gegn Atalanta.
Karim Benzema fagnar marki sínu gegn Atalanta. AFP

Þá eru Spánarmeistarar Real Madrid einnig komnir áfram í átta liða úrslitin eftir þægilegan 3:1-sigur gegn Atalanta í síðari leik liðanna á Alfredo Di Stefano-vellinum í Madríd í kvöld.

Madrídingar leiddu 1:0-eftir fyrri viðureign liðanna í Bergamo á Ítalíu og Karim Benzema kom Real Madrid yfir á 34. mínútu í kvöld.

Sergio Ramos tvöfaldaði forystu Real Madrid með marki úr vítaspyrnu á 60. mínútu áður en Luis Muriel minnkaði muninn fyrir Atalanta á 83. mínútu.

Marco Asensio gerði út um vonir Atalanta með marki á 85. mínútu og Real Madrid fer því áfram, samanlagt 4:1.

Man. City 2:0 Gladbach opna loka
90. mín. Riyad Mahrez (Man. City) á skot framhjá Mahrez aftur í góðu færi og aftur fer skotið fram hjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert