Alfreð Finnbogason, sóknarmaður þýska knattspyrnuliðsins Augsburg og íslenska landsliðsins, er í ítarlegu viðtali við heimasíðu þýska knattspyrnusambandsins í dag.
Eins og greint var frá fyrr í dag telur Alfreð það mjög ólíklegt að hann verði með íslenska landsliðinu gegn því þýska þegar liðin mætast í undankeppni HM 2022 í Duisburg í næstu viku, en landsliðshópurinn verður tilkynntur á morgun.
„Mér liði betur ef ég væri leikfær, gæti spilað gegn Þýskalandi og skorað mark. Því miður er ólíklegt að ég spili. En maður verður að halda í jákvæðnina og líta fram veginn,“ sagði Alfreð, en hann hefur ekki spilað fyrir Augsburg síðan í janúar.
„Kálfinn er enn að valda mér vandræðum. Ég er í sérþjálfun. Hlutirnir fóru ekki alveg samkvæmt áætlun, þess vegna þurfti ég að hægja aðeins á mér. En ég held að ég nái nokkrum leikjum til viðbótar á tímabilinu,“ bætti hann við.
Aðspurður hvernig staðan á íslenska landsliðinu væri í dag sagði Alfreð: „Þökk sé góðri frammistöðu síðastliðin fimm til sex ár eru gerðar miklar væntingar til okkar. Staðreyndin er sú að við höfum komist tvisvar í lokakeppni og í umspil tvisvar þegar síðustu fjögur stórmót eru skoðuð. Það er risa árangur fyrir okkur því áður fyrr vorum við aldrei nálægt því að komast í lokakeppni.
Ef við berum okkur saman í dag við liðið sem komst í fjórðungsúrslit á EM 2016, þá hefur frammistöðu okkar hrakað ögn en mér finnst við samt ennþá vera að standa okkur vel og erum ekki langt frá stóru þjóðunum.“
Alfreð sagði íslenska landsliðið stefna að því að ná öðru af efstu tveimur sætum J-riðilsins, þar sem það er með áðurnefndu Þýskalandi auk Rúmenníu, Norður-Makedóníu, Armeníu og Liechtenstein.
„Efsta sætið fer beint á HM og annað sætið fer í umspil. Markmiðið okkar verður að vera að ná öðru þeirra. Við erum alls óhræddir við að setja okkur háleit markmið. Við höldum okkur við það.“
Alfreð var einnig spurður um hvernig hann teldi álit Þjóðverja á íslenska landsliðinu vera. „Mjög jákvætt. Ég hef það á tilfinningunni að fjöldi fólks haldi með okkur, að við séum nokkurn veginn þeirra lið númer tvö. Árið 2016 fengum við mikinn meðbyr vegna náinna tengsla okkar við íslensku aðdáendurna.
Víkingaklappið varð heimsfrægt. Þetta var í fyrsta sinn sem við komumst á stórmót. Það var frábær upplifun og gerir mann enn hungraðri í að ná enn frekari árangri.“