„Arnór er hæfileikaríkur og reynslumikill leikmaður. Hann kemur með reynslu bæði úr landsliðinu og félagsliðum í hópinn okkar. Við erum spenntir að fá hann í liðið okkar og vonumst til að geta komið honum í hlutina eins fljótt og hægt er,“ sagði Bruce Arena þjálfari New England Revolution um Arnór Ingva Traustason á heimasíðu félagsins.
Arnór Ingvi skrifaði í gær undir samning við bandaríska félagið en hann kemur til þess frá Malmö í Svíþjóð þar sem hann hefur verið undanfarin ár.
Arena er mjög reynslumikill þjálfari og var hann m.a. landsliðsþjálfari Bandaríkjanna frá 1998 til 2006 og svo aftur frá 2016 til 2017. Hann hefur þjálfað New England Revolution frá árinu 2019 en hann hefur einnig þjálfað LA Galaxy, New York Red Bulls og DC United í deildinni.