Allt í góðu eftir agabrot

Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal.
Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal. AFP

Pierre-Emerick Aubameyang er í leikmannahópi Arsenal sem tekur á móti Olympiacos í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu á Emirates-vellinum í London á morgun.

Þetta staðfesti Mikel Arteta, stjóri Arsenal, á blaðamannafundi í dag en Aubameyang var settur á bekkinn fyrir leik liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina vegna agabrots.

Aubameyang átti að byrja leikinn gegn Tottenham en mætti of seint á leikdegi sem spænski stjórinn sætti sig ekki við.

„Ég átti gott samtal við Aubameyang eftir atvik helgarinnar og við leystum málið með jákvæðum hætti,“ sagði Arteta.

„Þetta mál er búið og við horfum fram á veginn núna. Hvort Aubameyang byrji leikinn á morgun þarf bara að koma í ljós.

Menn þurfa að vinna fyrir sínu sæti í liðinu og ég mun stilla upp því liði sem ég tel vænlegast til árangurs,“ bætti Arteta við.

Arsenal vann fyrri leikinn 3:1 í Grikklandi og er því í vænlegri stöðu fyrir seinni leikinn á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert