Enski knattspyrnumaðurinn Kieran Gibbs mun ganga til liðs við bandaríska atvinnumannaliðið Inter Miami næsta sumar.
Það er ESPN sem greinir frá þessu en Gibbs er samningsbundinn WBA í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Samningur hans rennur út í sumar og ákvað félagið að samingur leikmannsins yrði ekki framlengdur.
Vinstri bakvörðurinn, sem er 31 árs gamall, mun skrifa undir tveggja og hálfs árs samning við Inter Miami en hann er uppalinn hjá Arsenal.
Hann hefur byrjað níu leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en alls á hann að baki 180 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Arsenal og WBA.
Þá á hann að baki tíu A-landsleiki fyrir England en David Beckham, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins, er eigandi Inter Miami.