Chelsea verðskuldað í átta liða úrslit

Hakim Ziyech fagnar fyrra markinu.
Hakim Ziyech fagnar fyrra markinu. AFP

Chelsea er komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 2:0-sigur á Atlético Madrid á heimavelli í kvöld. Chelsea vann fyrri leikinn 1:0 og einvígið því 3:0.

Atlético byrjaði af krafti og sótti nokkuð á fyrstu mínútunum. Eftir því sem leið á hálfleikinn komst Chelsea betur inn í leikinn og var það verðskuldað þegar enska liðið komst yfir á 34. mínútu eftir eldsnögga skyndisókn.

Timo Werner slapp upp vinstri kantinn og sendi fyrir markið á Hakim Ziyech sem skaut á milli fóta Jan Oblak og í netið.

Chelsea var stálheppið stuttu á undan þegar Cesar Azpilicueta tók Yannick Carrasco niður innan teigs. Ekkert var dæmt þrátt fyrir að spænski varnarmaðurinn hafi gripið í Carrasco þegar sá belgíski var kominn einn í gegn. Hefði hæglega getað dæmt víti og rautt á Azpilicueta.

Mörkin í fyrri hálfleik urðu hins vegar ekki fleiri og var staðan í hálfleik 1:0 og í einvíginu 2:0. Atlético náði lítið að ógna marki Chelsea í seinni hálfleik og það fór í taugarnar á Svartfellingnum Stefan Savic á 82. mínútu því hann ákvað að gefa Antonio Rüdiger tilefnislaust olnbogaskot og fékk fyrir vikið beint rautt spjald.

Atlético gekk illa að skapa sér færi þegar jafnt var í liðum og það breyttist lítið eftir brottreksturinn. Varamaðurinn Emerson gulltryggði svo sigur Chelsea með marki í uppbótartíma, örfáum sekúndum eftir að hann kom inn á sem varamaður. 

Chelsea 2:0 Atlético Madrid opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Erfitt verk varð vonlaust fyrir Atlético þegar Savic lét reka sig út af.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert