Aðeins eitt lið getur komið í veg fyrir að Manchester City verði Evrópumeistari í knattspyrnu að mati Owen Hargreaves, fyrrverandi landsliðsmanns Englands.
City er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir stórsigur gegn Borussia Mönchengladbach í sextán liða úrslitum keppninnar, samanlagt 4:0.
City þurfti lítið að hafa fyrir sigrinum gegn Mönchengladbach, skoraði tvívegis snemma leiks í síðari leik liðanna í Búdapest í gær, og sigldi svo þægilega í gegnum restina af leiknum.
Hargreaves, sem lék með City á sínum tíma, starfar sem sparkspekingur á BT Sport.
„City-liðið í dag getur farið alla leið í Meistaradeildinni í ár og maður hefur meiri trú á þeim núna en áður,“ sagði Hargreaves eftir leik City og Mönchengladbach í gær.
„Þeir hafa verið í vandræðum með varnarleikinn hjá sér í gegnum tíðina en það er ekki veikan blett að finna á liðinu í dag, hvorki sóknar- né varnarlega.
„Þeir hafa unnið 21 af síðustu 22 leikjum sínum og þeir virka algjörlega óstöðvandi. Eina liðið sem maður sér mögulega stoppa City í Meistaradeildinni er Bayern München,“ bætti Hargreaves við en hann lék með Bæjurum frá 1997 til ársins 2007.