Evrópumeistararnir örugglega áfram

Robert Lewandowski fagnar fyrsta marki leiksins.
Robert Lewandowski fagnar fyrsta marki leiksins. AFP

Evrópumeistarar Bayern München eru komnir áfram í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 2:1-sigur á Lazio á heimavelli í kvöld.

Bayern var í afar góðum málum eftir 4:1-sigur í fyrri leiknum og var því ekki í vandræðum með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.

Pólski markahrókurinn Robert Lewandowski skoraði eina mark fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu á 33. mínútu með sínu fimmta marki í keppninni á leiktíðinni.  

Bayern var miklu sterkari aðilinn í seinni hálfleik og annað markið kom loks á 73. mínútu þegar Eric Maxim Choupo-Moting skoraði eftir undirbúning hjá David Alaba en Choupo-Moting kom inn á fyrir Lewandowski skömmu áður.

Lazio lagaði stöðuna örlítið á 82. mínútu þegar Marco Parolo skoraði en nær komst ítalska liðið ekki og Evrópumeistararnir fóru örugglega áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert