Myndi líka bitna á þýska landsliðinu

Ilkay Gündogan gæti misst af leiknum gegn Íslandi.
Ilkay Gündogan gæti misst af leiknum gegn Íslandi. AFP

Fari svo að UEFA finni enga lausn á þeim vandamálum sem steðja að landsliðsmönnum sem leika á Bretlandseyjum, að þeim verði jafnvel ekki hleypt til Þýskalands, er ljóst að fjórir leikmenn íslenska landsliðsins og fjöldi frábærra leikmanna þýska landsliðsins gætu ekki tekið þátt í leik liðanna í næstu viku.

Fyrr í dag sagði Arn­ar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, að enn sé óljóst hvort þeir fjórir leikmenn landsliðsins sem spila á Bretlandseyjum muni fá inngöngu í Þýskaland. Beðið væri svara frá UEFA og þýskum stjórnvöldum.

Færi svo að þeim yrði meinuð innganga í landið yrði það gífurleg blóðtaka fyrir íslenska landsliðið, því Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Jón Daði Böðvarsson gætu þá ekki tekið þátt í leiknum.

Þó blóðtakan yrði ekki nándar nærri jafn mikil fyrir stórlið Þýskalands þar sem það hefur úr margfalt fleiri gæðaleikmönnum að velja gæti alls sex leikmönnum sem hafa verið í síðustu landsliðshópum verið meinuð þátttaka.

Um væri að ræða einn besta leikmann ensku úrvalsdeildarinnar, Ilkay Gündogan hjá Manchester City, auk þeirra Timo Werner, Antonio Rüdiger og Kai Havertz hjá Chelsea, Bernd Leno hjá Arsenal og Robin Koch hjá Leeds United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert