Sá besti sem Klopp hefur þjálfað

Robert Lewandowski hefur raðað inn mörkunum í Þýskalandi undanfarin ár.
Robert Lewandowski hefur raðað inn mörkunum í Þýskalandi undanfarin ár. AFP

Robert Lewandowski, framherji Þýskalandsmeistara Bayern München í knattspyrnu, er besti leikmaður sem Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur þjálfað.

Þetta staðfesti þýski stjórinn í samtali við Bild á dögunum en Klopp og Lewandowski unnu saman hjá Borussia Dortmund frá 2010 til ársins 2014.

Klopp fékk Lewandowski til Dortmund frá Lec Poznan í Póllandi en Lewandowski var útnefndur besti leikmaður heims á síðasta ári.

„Robert Lewandowski er sá besti sem ég hef þjálfað,“ sagði Klopp í samtali við Bild.

„Það væri ósanngjarnt að nefna einhvern annan leikmann. Það sem hann hefur lagt á sig til þess að verða að þeim leikmanni sem hann er í dag er algjörlega magnað.

Lewy gerði allt sem hann gat til þess að verða sá markaskorari sem hann er í dag. Hann er þannig leikmaður í dag að hann veit nákvæmlega hvað hann á að gera í hvaða aðstæðum sem er.

Hann er vélmenni, svo einfalt er það,“ bætti þýski knattspyrnustjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert