Talaði við Kurt Zouma í morgun

Knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel var sáttur við sína menn í kvöld.
Knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel var sáttur við sína menn í kvöld. AFP

„Þetta var frábær frammistaða hjá mínu liði,“ sagði Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, í samtali við BT Sport eftir 2:0-sigur Chelsea gegn Atlético Madrid í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Stamford Bridge í London í kvöld.

Hakim Ziech og Emerson skoruðu mörk Chelsea í leiknum en fyrri leik liðanna á Spáni lauk með 1:0-sigri Chelsea og enska liðið vann því viðureignina samanlagt 3:0.

„Það lögðu allir mikla vinnu á sig, líka leikmennirnir sem voru í stúkunni,“ sagði Tuchel kátur.

„Þeir reyndu að pressa okkur í fyrri hálfleik en við gerðum virkilega vel í að leysa úr pressunni. Þeir gerðu okkur stundum erfitt fyrir í seinni hálfleik en við sýndum það og sönnuðum að við vorum tilbúnir að gera allt til þess að fara áfram í næstu umferð.

Við söknum fastamanna í vörnina hjá okkur og ég sagði Kurt Zouma í morgun að hann myndi spila í kvöld. Hann steig upp og stóð sig frábærlega, alveg eins og allir aðrir leikmenn liðsins.

Við vorum fastir fyrir og gáfum fá færi á okkur. Við unnum baráttuna inni á vellinum í kvöld og erum verðskuldað komnir áfram í átta liða úrslitin. Við erum hungraðir í að ná enn þá lengra,“ bætti Tuchel við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert