Þú veist hvað ég elska þig mikið

Lionel Messi hefur verið orðaður við brottför frá Barcelona.
Lionel Messi hefur verið orðaður við brottför frá Barcelona. AFP

Joan Laporta tók við sem forseti spænska íþróttafélagsins Barcelona í dag í annað sinn.

Laporta, sem er 58 ára gamall, var forseti félagsins frá 2003 til ársins 2010 en spænska félagið er í miklum fjárhagsvandræðum þessa dagana.

Þá hefur Lionel Messi, fyrirliði liðsins og einn besti knattspyrnumaður sögunnar, verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu.

Messi er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið eftir tímabilið á frjálsri sölu en Laporta ætlar að leggja allt kapp á að halda argentínska snillingnum.

„Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að halda Messi hjá félaginu,“ sagði Laporta þegar hann tók við embætti í dag.

„Hann er besti leikmaður í heimi og vonandi fyrirgefur hann mér fyrir að segja þetta á opinberum vettvangi en þú veist hvað ég elska þig mikið og hversu mikið við viljum halda þér hérna,“ sagði Laporta og beindi orðum sínum að Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert