Vil upplifa þessa tilfinningu aftur og aftur

Alisson Becker, markvörður Liverpool.
Alisson Becker, markvörður Liverpool. AFP

Alisson Becker, markvörður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, segir að nú þegar hann þekki tilfinninguna sem fylgi því að vinna Meistaradeild Evrópu vilji hann upplifa hana aftur og aftur.

„Lífið snýst um að berjast fyrir draumum sínum. Maður getur breytt draumnum eða uppfært hann, en maður verður að halda áfram að berjast fyrir því sem gerir þig hamingjusaman.

Í knattspyrnu er aðalmarkmiðið að vinna titla. Nú þegar ég veit hvernig tilfinning það er að vinna úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vil ég upplifa hana aftur og aftur,“ sagði Alisson í samtali við knattspyrnutímaritið Four Four Two.

Þegar hann ræddi við tímaritið í nóvember 2018 hafði hann talað á svipaða leið: „Til hvers er lífið ef þú berst ekki fyrir draumum þínum? Mig dreymir um að vinna Meistaradeildina.“

Rúmu hálfu ári síðar hafði hann gert einmitt það, þegar Liverpool vann 2:0 sigur gegn Tottenham Hotspur á Wanda Metropolitano-vellinum í Madríd á Spáni. Ári síðar vannst svo enska úrvalsdeildin og í millitíðinni vann Alisson Ameríkubikarinn með brasilíska landsliðinu, ofurbikar Evrópu og svo HM félagsliða.

Yfirstandandi tímabil hefur hins vegar verið erfitt og möguleikinn á því að endurheimta enska meistaratitilinn enginn, og raunar ekki útséð um að Liverpool nái Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni.

Frammistaðan í Meistaradeildinni hefur þrátt fyrir allt verið góð og beinir Alisson því sjónum sínum að henni þetta tímabilið, en Liverpool komst á dögunum örugglega áfram í fjórðungsúrslit keppninnar með samanlögðum 4:0 sigri gegn RB Leipzig í 16-liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert