José Mourinho knattspyrnustjóri Tottenham sagði eftir ósigurinn gegn Dinamo Zagreb í Evrópudeildinni í kvöld að einungis annað liðið hefði sýnt að það hefði áhuga á að komast áfram í keppninni.
„Á fyrstu 90 mínútunum og í fyrri hálfleik framlengingarinnar var annað liðið tilbúið til að fórna öllu. Þeir gáfu sig alla í leikinn, blóð, svita og tár. Í leikslok gátu þeir líka gefið frá sér gleðitár. Mjög auðmjúkir, en mjög einbeittir, og ég verð að hrósa þeim,“ sagði Mourinho eftir leikinn.
Dinamo vann 3:0 eftir framlengingu og er komið í átta liða úrslit en Tottenham virtist með pálmann í höndunum eftir 2:0 sigur í fyrri leiknum í London.
„Á hinn bóginn var það svo liðið mitt. Ég endurtek, liðið mitt. Ég er hluti af því. Það leit ekki út fyrir að það væri að spila mikilvægan leik. Kannski var þetta ekki mikilvægur leikur fyrir einhverja þeirra. Hann var það fyrir mig. Ég ber virðingu fyrir mínum ferli og mínu starfi. Allir leikir eru mér mikilvægir,“ sagði Mourinho.