Pogba tryggði United sigur í Mílanó

Paul Pogba fagnar marki sínu ásamt Bruno Fernandes.
Paul Pogba fagnar marki sínu ásamt Bruno Fernandes. AFP

Paul Pogba sneri aftur á völlinn og skoraði sigurmark Manchester United gegn AC Milan þegar liðin mættust í annað sinn í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á San Siro-vellinum í Mílanó í kvöld. Man Utd er þar með komið áfram í fjórðungsúrslit keppninnar.

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik, en þó átti sér stað athyglisvert atvik á 21. mínútu, þegar Daniel James virtist felldur innan teigs af Fikayo Tomori. James var kominn í álitlega stöðu og hefði vissulega getað gefið boltann fyrr til hliðar á Mason Greenwood í kjörstöðu en Tomori fór af krafti í James og snerti hvergi boltann. Dómarinn dæmdi þó ekkert og VAR aðhafðist sömuleiðis ekkert.

Undir blálok hálfleiksins fékk Rade Krunic svo frábært tækifæri til þess að koma AC Milan yfir eftir mjög góðan undirbúning Alexis Saelemaekers en skot Krunic fór framhjá markinu, tókst Aaron Wan-Bissaka að trufla hann aðeins.

Markalaust var því í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var hins vegar ekki gamall þegar Man Utd tók forystuna. Eftir mikinn darraðadans í teignum í kjölfar skota James og Fred í varnarmenn AC Milan barst boltinn til Paul Pogba, sem hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik. Hann var í góðri stöðu í vítateignum og smellti boltanum laglega upp í þaknetið af stuttu færi, staðan orðin 1:0 á 48. mínútu.

Á 65. mínútu kom Zlatan Ibrahimovic inn á í liði AC Milan. Sóknarleikur heimamanna batnaði talsvert við það og fékk hann sjálfur besta færið til þess að jafna metin fyrir liðið þegar Hakan Calhanoglu átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri kanti þar sem Zlatan var einn á auðum sjó en skalli hans beint á Dean Henderson í marki Man Utd, sem varði vel áður en Luke Shaw hreinsaði í horn.

Leikmenn AC Milan héldu áfram að reyna að jafna metin á meðan Man Utd var hættulegt í skyndisóknum sínum. Ekkert meira var þó skorað í leiknum og 1:0 sigur Man Utd og 2:1 samanlagður sigur því staðreynd, eftir að liðin gerðu 1:1 jafntefli á Old Trafford í Manchester fyrir viku síðan.

Pogba reyndist hetjan eftir að hafa misst af síðustu níu leikjum Man Utd vegna meiðsla og er ljóst að endurkoma hans er kærkomin fyrir liðið það sem eftir lifir tímabils.

Theo Hernandez og Mason Greenwood í leiknum í kvöld.
Theo Hernandez og Mason Greenwood í leiknum í kvöld. AFP
AC Milan 0:1 Man. Utd opna loka
96. mín. Leik lokið Man Utd tryggir sig áfram í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert