Tottenham fékk skell í Zagreb

Mislav Orsic var hetja Dinamo í kvöld og skýtur hér …
Mislav Orsic var hetja Dinamo í kvöld og skýtur hér að marki Tottenham. AFP

Dinamo Zagreb sló í kvöld Tottenham út í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir sigur í framlengdum leik í Króatíu.

Tottenham stóð vel að vígi eftir að hafa unnið fyrri leikinn í London, 2:0. Leikurinn í kvöld var markalaus í rúman klukkutíma og staðan því orðin vænleg fyrir José Mourinho og hans menn.

En á 62. mínútu skoraði Mislav Orsic fyrir Króatana, sem þar með öðluðust auknar vonir, og á 82. mínútu skoraði Orsic öðru sinni. Staðan því 2:0, allt jafnt 2:2 eftir venjulegan leiktíma og því gripið til framlengingar.

Þar var Orsic enn á  ferð á síðustu mínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar, skoraði sitt þriðja mark og staðan orðin 3:0 fyrir Dinamo – 3:2 samanlagt.

Tottenham þurfti eitt mark til að komast áfram og Dominik Livakovic var hetja Króatanna seint í seinni hálfleik framlengingarinnar þegar hann varði frá Gareth Bale og Harry Kane úr dauðafærum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert