Knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic er á varamannabekk AC Milan sem tekur á móti Manchester United í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í Mílanó klukkan 20 í kvöld.
Zlatan missti af fyrri leiknum í Manchester í síðustu viku vegna meiðsla en Svíinn, sem er 39 ára gamall, lék síðast með AC Milan í lok febrúar. Hann var leikmaður United frá 2016 til 2018, skoraði 17 mörk í 33 úrvalsdeildarleikjum.
Sænski framherjinn hefur skorað fjórtán mörk í þrettán byrjunarliðsleikjum í ítölsku A-deildinni í vetur. Fyrri leik liðanna á Old Trafford lauk með 1:1-jafntefli þar sem Amad Diallo kom United yfir í upphafi síðari hálfleiks en Simon Kjær jafnaði metin fyrir AC Milan með skallamarki í uppbótartíma.