Zlatan í byrjunarliðinu gegn United?

Zlatan Ibrahimovic er að koma til baka eftir meiðsli.
Zlatan Ibrahimovic er að koma til baka eftir meiðsli. AFP

Ítalskir fjölmiðlar reikna með því að knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic verði í byrjunarliði AC Milan þegar liðið tekur á móti Manchester United í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildar UEFA í Mílanó í kvöld.

Zlatan missti af fyrri leiknum í Manchester í síðustu viku vegna meiðsla en Svíinn, sem er 39 ára gamall, lék síðast með AC Milan í lok febrúar.

Sænski framherjinn hefur skorað fjórtán mörk í þrettán byrjunarliðsleikjum í ítölsku A-deildinni á tímabilinu.

Fyrri leik liðanna á Old Trafford lauk með 1:1-jafntefli þar sem Amad Diallo kom United yfir í upphafi síðari hálfleiks en Simon Kjær jafnaði metin fyrir AC Milan með skallamarki í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert