Dean Henderson, markvörður enska knattspyrnuliðsins Manchester United, hefur staðið vaktina í marki liðsins að undanförnu og staðið sig með stakri prýði. Árangur hans á tímabilinu borið saman við David de Gea, sem að öllu jöfnu er aðalmarkvörður Man Utd, er ansi athyglisverður.
Þannig hefur Henderson spilað 18 leiki í öllum keppnum. Hefur hann haldið markinu sínu hreinu í 12 þeirra og aðeins fengið á sig 10 mörk.
Til samanburðar hefur de Gea spilað 29 leiki í öllum keppnum, þar sem hann hefur haldið hreinu í 10 þeirra og alls fengið á sig 37 mörk.
Henderson var í marki Man Utd í gærkvöldi, þegar liðið vann góðan 1:0 útisigur í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar gegn AC Milan og tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar.
David de Gea, sem hefur verið fjarverandi undanfarinn mánuð vegna heimsóknar til Spánar, hvar eiginkona hans fæddi þeirra fyrsta barn í síðasta mánuði, sneri aftur í leikmannahóp Man Utd í gær og var á varamannabekknum.
Áhugavert verður að sjá hvort Henderson haldi stöðu sinni í marki Man Utd þegar liðið heimsækir Leicester City í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn.