Er svo stand­andi hissa á þessu

Zinedine Zidane og Karim Benzema ræða málin á hliðarlínunni.
Zinedine Zidane og Karim Benzema ræða málin á hliðarlínunni. AFP

Zinedine Zidane, þjálfari Real Madríd á Spáni, er furðu lostinn yfir því að sóknarmaðurinn Karim Benzema fái ekki að spila með franska landsliðinu í knattspyrnu. Framherjinn hefur ekki spilað landsleik síðan 2015.

„Hvernig í ósköpunum er hægt að skilja hvers vegna Karim spilar ekki með landsliðinu? Það eru margir sem eru agndofa yfir því,“ sagði Zidane á blaðamannafundi sínum eftir 3:1-sigur Real á Celta Vigo í dag, þar sem Benzema skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja.

„En það er heppilegt fyrir mig sem þjálfara Madríd að hann verði um kyrrt, hann er frábær leikmaður,“ bætti Zidane við.

Hvers vegna spilar Benzema ekki með Frökkum?

Benzema hefur verið lykilmaður spænsku meistaranna í mörg ár og alveg frábær í vetur, skoraði 17 deildarmörk í 24 leikjum. Engu að síður hefur hann ekki verið í náðinni hjá franska landsliðinu eftir að hafa verið grunaður um að eiga aðild að fjár­kúg­un á samlanda sín­um Mat­hieu Valbuena. Málið kom upp á heimsmeistaramótinu í Brasilíu 2014. Reynt var að kúga fé út úr Val­bu­ena með því að hóta dreif­ingu á kyn­lífs­mynd­bandi þar sem leikmaður­inn kom fyr­ir. Benzema lét Val­bu­ena vita um til­vist mynd­bands­ins sím­leiðis og þá var talið að hann væri viðriðinn málið.

Benzema skoraði þar áður 27 mörk í 81 landsleik fyrir Frakkland og spilaði á fjórum stórmótum en framherjinn er orðinn 33 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert