Evrópumeistarar Bayern München sýndu úr hverju þeir eru gerðir er Stuttgart kom í heimsókn til Bæjaralands í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag.
Kanadamaðurinn Alphonso Davies fékk beint rautt spjald í stöðunni 0:0 strax á 12. mínútu en það hægði lítið á Bayern því tíu mínútum síðar var staðan orðin 3:0.
Robert Lewandowski skoraði þá tvisvar og þess á milli komst Serge Gnabry á blað. Lewandowski fullkomnaði þrennuna á 39. mínútu og öruggan 4:0-sigur. Bayern er með 61 stig á toppi deildarinnar, fjórum stigum á undan Leipzig.
Dortmund varð að sætta sig við 2:2-jafntefli á útivelli gegn Köln. Erling Braut Haaland kom Dortmund yfir á 3. mínútu en Odrej Duda og Ismail Jakobs sneru taflinu við fyrir Köln. Haaland tryggði Dortmund hins vegar eitt stig með marki á lokamínútunni. Dortmund er í fimmta sæti með 43 stig.