Markvörðurinn Yassine Bounou, oftast kallaður Bono, tryggði Sevilla 1:1 jafntefli gegn Valladolid þegar hann skoraði í uppbótartíma venjulegs leiktíma í leik liðanna í spænsku 1. deildinni í gærkvöldi.
Bono hafði fengið á sig mark úr víti þegar Fabian Orellana kom Valladolid yfir skömmu fyrir leikhlé.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma brá hann sér í sóknina og þrumaði boltanum í netið af stuttu færi eftir að Jules Kounde framlengdi fyrirgjöf Youssef En-Nesyri fyrir fætur hans.
Þetta var fyrsta mark Bono á ferlinum. Hann var enda einkar glaður með markið og fékk gult spjald fyrir að fara úr treyju sinni.