Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi varð í kvöld leikjahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi er liðið vann afar sannfærandi 6:1-sigur gegn Real Sociedad í spænsku 1. deildinni.
Messi, sem skoraði tvö af mörkum Börsunga og lagði upp eitt, hefur nú spilað 768 leiki fyrir félagið frá árinu 2004, einum fleiri en Xavi sem spilaði 767 leiki á árunum 1998 til 2015.
Antoine Griezmann kom gestunum í forystu á 37. mínútu og Sergino Dest bætti við marki sex mínútum síðar eftir undirbúning Messis. Dest skoraði annað mark sitt og þriðja mark Barcelona á 53. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Messi sjálfur. Ousmane Dembélé kom svo gestunum í 5:0-forystu áður en Ander Barrenetxea klóraði í bakkann fyrir heimamenn.
Messi kórónaði svo daginn með sjötta og síðasta marki leiksins á síðustu mínútu venjulegs leiktíma. Sigurinn var sérlega stór í ljósi þess að Real Sociedad hefur verið eitt af sterkari liðum deildarinnar í vetur, er í 5. sæti með 45 stig.
Barcelona er nú með 62 stig í öðru sæti deildarinnar eftir 28 umferðir, fjórum stigum á eftir Atlético Madríd sem vann 1:0-sigur á Alavés fyrr í kvöld þökk sé sigurmarki Luis Suárez. Real Madríd er í þriðja sæti með 60 stig.