Knattspyrnumaðurinn Mikael Egill Ellertsson hefur framlengt samning sinn við ítalska B-deildarfélagið SPAL en umboðsmaður hans greindi frá því í gærkvöldi.
Miðjumaðurinn hefur verið að vinna sig upp yngri lið félagsins, spilaði fyrst með U17-liðinu og er í dag lykilmaður í U19-liðinu. Hann hefur spilað 18 leiki á tímabilinu í öllum keppnum, skorað í þeim fimm mörk. Nýi samningurinn er til næstu tveggja ára.
Mikael Egill er á nítjánda aldursári en hann kom til Ítalíu frá knattspyrnufélaginu Fram fyrir tveimur árum. Hann lék átta leiki í Safamýrinni í 1. deild áður en leiðin lá til Ítalíu. Hann hefur skorað þrjú mörk í 26 leikjum fyrir yngri landslið Íslands.