Duncan Castles, íþróttafréttamaður hjá Sunday Times, segir Georginio Wijnaldum, miðjumann Liverpool, vera búinn að samþykkja drög að samningi við spænska stórveldið Barcelona.
Samkvæmt heimildum Sunday Times verður hollenski landsliðsmaðurinn fyrsti leikmaðurinn sem mun semja við Barcelona eftir að Joan Laporta tók við sem forseti félagsins í annað sinn.
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona, hefur rennt hýru auga til Wijnaldum frá því síðasta sumar en ekki var mögulegt fyrir félagið að leggja fram kauptilboð þá vegna fjárhagsörðugleika þess.
Samningur Wijnaldum við Englandsmeistara Liverpool rennur út í sumar og fjöldi tilrauna forsvarsmanna félagsins til þess að semja við hann að nýju hafa runnið út í sandinn.