Rafael Benítez, fyrrverandi þjálfari Liverpool, telur liðið geta fetað í fótspor Liverpool-liðsins sem vann Meistaradeild Evrópu undir hans stjórn árið 2005.
Liverpool vann þá AC Milan í vítaspyrnukeppni eftir að hafa lent 3:0 undir í hálfleik en jafnað metin í þeim síðari. Leikurinn fór fram í Istanbúl og hefur verið bent á að leið Liverpool í átt að úrslitum keppninnar þetta árið 2021 gæti endað á að vera mjög svipuð þeirri sem liðið fór árið 2005.
„Fólk talar um Istanbúl eins og við höfum verið heppnir. En við vorum ekki heppnir að vinna Meistaradeildina. Við spiluðum gegn Juventus sem var frábært lið og spiluðu 5-3-2. Við þurftum að laga okkur taktískt að mjög erfiðum andstæðingi og svo eftir að okkur gekk vel gegn þeim jókst sjálfstraust okkar.
Við spiluðum svo við Chelsea. Á þeim tíma var það besta liðið, jafnvel í Evrópu, alla vega tvímælalaust á Englandi. En lið okkar var með svo mikið sjálfstraust að við gátum ráðið við þá taktískt. Við vorum lið með mikla trú,“ sagði Benítez í samtali við Daily Mail.
Benítez telur að Liverpool geti gert svipaða hluti á þessu tímabili. „Ég tel að Liverpool geti gert það sama og komist í úrslitaleikinn.“ Hann segir liðið eiga góða möguleika í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Real Madríd en telur þó Manchester City sigurstranglegasta liðið í keppninni þetta tímabilið.
Líkindin milli tímabilanna tveggja eru athyglisverð. Tímabilið 2004/2005 endaði Liverpool í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en efstu fjögur sætin gáfu þá og gefa enn sæti í Meistaradeildinni. Á þessu ári hefur liðið átt í miklum vandræðum í deildinni og er útlit fyrir að það nái ekki einu af efstu fjórum sætunum í henni á tímabilinu
Fari svo að Liverpool slái Real Madríd út í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar myndi Chelsea svo vera líklegur andstæðingur í undanúrslitum keppninnar, en Chelsea dróst gegn Porto og hefur verið óstöðvandi eftir að Thomas Tuchel tók við stjórnartaumunum.
Þá fer úrslitaleikurinn í ár fram á Atatürk ólympíuleikvanginum í Istanbúl, sama velli og úrslitaleikurinn árið 2005 fór fram.