Toni Kroos, miðjumaður Real Madrid og þýska landsliðsins í knattspyrnu, hefur dregið sig úr landsliðshóp Þýskalands sem mætir meðal annars Íslandi í undankeppni HM hinn 25. mars í Duisburg.
Þetta staðfesti þýska knattspyrnusambandið á samfélagsmiðlinum sínum í dag en Kroos var leikjahæsti leikmaðurinn í hópnum með 101 landsleik á bakinu.
Kroos er að glíma við meiðsli en hann hefur leikið með Real Madrid frá árinu 2014 og þrívegis orðið Evrópumeistari með liðinu, ásamt því að verða spænskur meistari í tvígang.
Miðjumaðurinn varð heimsmeistari með Þjóðverjum 2014 og þá hefur hann leikið með þýska liðinu á HM 2010, 2014 og 2018 ásamt EM 2012 og 2016.
Þýskaland mætir Rúmeníu í Búkarest 28. mars og loks Norður-Makedóníu í Duisburg, 31. mars.