Evrópumeistararnir með undirtökin gegn erkifjendunum

Wendie Renard fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Wendie Renard fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP

Evrópumeistarar Lyon eru með undirtökin gegn erkifjendum sínum í franska fótboltanum eftir sigur, 1:0, í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar kvenna sem fram fór á hinum fræga Parc des Princes leikvangi í París í kvöld.

Fyrirliðinn Wendie Renard skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 87. mínútu eftir að boltinn fór í hönd leikmanns Parísarliðsins í vítateignum.

Sara Björk Gunnarsdóttir var varamaður hjá Lyon í leiknum og kom ekkert við sögu að þessu sinni.

Liðin mætast aftur í Lyon næsta miðvikudag og þá ræðst hvort þeirra kemst í undanúrslit keppninnar.

Barcelona vann Manchester City 3:0 fyrr í dag og Chelsea lagði Wolfsburg að velli, 2:1. Leikur Bayern München og Rosengård hófst í München klukkan 18 en þar eigast við Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Glódís  Perla Viggósdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert