Hefði verið sérstakt að spila gegn Þýskalandi

Alfreð Finnbogason í leik með Augsburg í janúar.
Alfreð Finnbogason í leik með Augsburg í janúar. AFP

Alfreð Finnbogason, sóknarmaður þýska knattspyrnuliðsins Augsburg, hefur glímt við þrálát kálfameiðsli frá því í lok janúar. Hann segist sérstaklega svekktur yfir því að missa af landsleik Íslands gegn Þýskalandi.

„Ég er pirraður yfir hverjum einasta leik sem ég missi af. En að spila gegn Þýskalandi hefði verið afar sérstakt því ég spila hér,“ sagði Alfreð í samtali við þýska íþróttatímaritið Kicker.

Hann hefur undanfarið verið að æfa einn síns liðs og vonast eftir því að fara að nálgast endurkomu að yfirstandandi landsleikjahléi loknu.

„Síðasta vika var mjög jákvæð. Það er ljós við enda ganganna,“ sagði Alfreð í samtali við staðarblaðið Augsburger Allgemeinen á dögunum.

Hann þarf áfram að vera í sérþjálfun en undanfarnar vikur hefur nokkrum sinnum komið bakslag í bata Alfreðs þegar hann hefur reynt að auka æfingaálag sitt.

„Það er erfitt að setja einhverja nákvæma dagsetningu á endurkomu hans. Ef hann finnur aftur til eftir æfingu af fullum ákafa þá er það ekki nóg. Hann verður að geta gefið sig 100 prósent í öll verkefni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af kálfanum sínum,“ sagði Stefan Reuter, framkvæmdastjóri Augsburg, í samtali við Kicker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert