Íslendingar þekktir fyrir sigurhugarfar

Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands.
Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands. AFP

Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins í knattspyrnu, segir Íslendinga þekkta fyrir sigurhugarfar. Hann telur fjarveru Gylfa Þórs Sigurðssonar, lykilmanns íslenska landsliðsins, auðvitað vera mikinn missi fyrir liðið.

„Ég tel að íþróttir skipti miklu máli á Íslandi. Þeir eru afar norðarlega og spila mikið boltaíþróttir. Íslendingar eru þekktir fyrir sigurvegara hugarfar, heilbrigt hugarfar. Þeir vita að þeir hafa möguleika á að setja saman gott lið, sagði Löw á alþjóðlegum Zoom-fundi með blaðamönnum í dag.

Hann fór aðeins yfir íslenska liðið: Ísland kemur eflaust til með að spila meira varnarlega, þá þarf sóknarleikur okkar að virka vel. Þeir eru þéttir fyrir og sterkir, spila góða vörn og því er kannski ekki óvænt að þeir skori ekki mikið af mörkum.

Þeir spila hratt, eru fljótir fram og senda mikið af háum boltum fram. Það er erfitt að spila á móti þannig liðum en við lögum okkur auðvitað að því hvernig andstæðingurinn spilar.“ 

Löw sagði liðið taka einn leik fyrir í einu og að það stefni að því að leggja erfitt síðasta ár að baki sér. „Ég horfi bara til að byrja með á þennan fyrsta leik gegn Íslandi. Við förum í gegnum hann og sjáum hvernig liðið kemur út úr honum. Við höfum átt í smá vandræðum að undanförnu en þurfum að sjá hvernig leikurinn á morgun fer. Við þurfum að nota þessa þrjá leiki til þess að pússa okkur saman.“

Hann staðfesti að Toni Kroos, Niklas Süle og Robin Gosens væru allir meiddir og kæmu ekki til með að taka þátt í leiknum á morgun. Kroos mun ekki taka þátt í neinum af leikjunum þremur í þessum landsleikjaglugga en Süle og Gosens eiga möguleika á að taka þátt í hinum leikjunum tveimur.

Þá var Löw spurður út í fjarveru Gylfa Þórs frá íslenska liðinu og sagði þá: „Hann er einn allra besti leikmaður Íslands. Þetta er leiðinlegt fyrir Ísland og hefur auðvitað neikvæð áhrif á liðið. Hann er auðvitað mikill missir fyrir íslenska liðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert