Tyrkir fengu í kvöld fljúgandi start í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu þegar þeir lögðu Hollendinga að velli, 4:2, í fyrsta leik G-riðilsins í Istanbúl.
Þessi tvö lið eru líklegust, ásamt Norðmönnum, til að berjast um að komast í lokakeppni HM 2022 í Katar.
Burak Yilmaz skoraði tvívegis fyrir Tyrki í fyrri hálfleik og kom þeim í 2:0 og strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks bætti Hakan Calhanoglu við þriðja markinu með langskoti, 3:0.
Hollendingar sóttu án afláts og uppskáru tvö mörk á þremur mínútum. Davy Klaassen skoraði á 75. mínútu og Luuk de Jong tveimur mínútum síðar. Staðan var allt í einu orðin 3:2 og gríðarleg spenna í leiknum.
En Burak Yilmaz fullkomnaði þrennuna á 81. mínútu með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu og innsiglaði sigur Tyrkja, 4:2.
Hinir tveir leikir fyrstu umferðar G-riðils hefjast kl. 19.45 en þá leikur Gíbraltar við Noreg og Lettland við Svartfjallaland.