Emre Can, leikmaður Borussia Dortmund og þýska landsliðsins, segist ekki þekkja íslenska landsliðið mjög vel en að hann og aðrir leikmenn Þýskalands beri þó mikla virðingu fyrir því.
„Það er ótrúlegt hvað svona lítið land hefur búið til mikið af góðum íþróttamönnum. Þeir voru á síðasta HM og ég sýni þeim virðingu að komast svona langt. Við þurfum að sjá hvernig þeir verða á morgun, hvað þeir sýna okkur,“ sagði Can á alþjóðlegum Zoom-fjarfundi með blaðamönnum í dag.
Aðspurður hverjir styrkleika og veikleikar íslenska landsliðsins væru sagði Can: „Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þekki ég íslenska liðið ekki svo vel. Þeir hafa kannski engar stórar stjörnur í sínum röðum en við berum engu að síður mikla virðingu fyrir þeim.
Við einbeitum okkur þó fyrst og fremst að okkur, að okkar leik. Við viljum náttúrulega vinna leikinn og ætlum okkur það.“