Danir stefna á að leyfa að minnsta kosti 11 til 12 þúsund áhorfendur á þeim leikjum Evrópumeistaramótsins sem fara fram þar í landi í sumar.
Mótið, sem átti að fara fram á síðasta ári, hefst 11. júní og verður spilað til 11. júlí í nokkrum löndum. Þjóðarleikvangur Dana, Parken, mun hýsa fjóra leiki á mótinu en völlurinn getur tekið 38 þúsund manns í sæti.
„Þetta er einstakur og sögulegur atburður fyrir Danmörku,“ segir í yfirlýsingu frá dönskum yfirvöldum. „Þess vegna ætla yfirvöld að leyfa að minnsta kosti 11 til 12 þúsund áhorfendur á leikjunum fjórum sem fara fram hér.“
Þá kemur til greina að leyfa fleiri áhorfendur ef aðstæður leyfa, en það fer þá væntanlega eftir því hvernig gengur að hemja kórónuveirufaraldurinn. Leikir EM fara fram í alls 12 löndum en evrópska knattspyrnusambandið hefur beðið alla gestgjafa um að ákveða sig fyrir 7. apríl hvort þeir stefni á að leyfa áhorfendur.
Ásamt Danmörku stefna Rússar að því að selja inn á leikina sem haldnir verða í Pétursborg.