Danir og Svisslendingar fóru vel af stað í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í dag en báðar þjóðir unnu góðan útisigur í sínum fyrsta leik.
Danir fóru til Ísrael og sigruðu þar 2:0 í Tel Aviv. Martin Braithwaite, sóknarmaður Barcelona, skoraði strax á 13. mínútu eftir sendingu frá Jonas Wind, sem innsiglaði sigurinn með öðru marki Dana á 67. mínútu.
Þjóðirnar eru í F-riðli en þar leika kl. 19.45 Moldóva - Færeyjar og Skotland - Austurríki.
Svisslendingar sóttu Búlgara heim til Sofia og gerðu nánast út um þá viðureign á fyrstu þrettán mínútunum. Þá var staðan orðin 3:0 eftir að Breel Embolo, Haris Seferovic og Steven Zuber skoruðu en Xherdan Shaqiri lagði upp tvö markanna.
Kiril Desopdov svaraði fyrir Búlgara í byrjun síðari hálfleiks en þar við sat og Sviss vann 3:1. Þessi lið eru í C-riðli ásamt Ítalíu og Norður-Írlandi, sem mætast í kvöld, og Litháen sem situr hjá í fyrstu umferðinni.