Frá Real Madrid til Juventus?

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid.
Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid þykir líklegastur til þess að taka við Ítalíumeisturum Juventus ef Andrea Pirlo verður rekinn.

Það er spænski miðillinn AS sem greinir frá þessu en Pirlo þykir ansi valtur í sessi þessa dagana eftir slæma byrjun á tímabilinu.

Juventus er úr leik í Meistaradeildinni eftir tap gegn Porto í sextán liða úrslitum keppninnar og þá er liðið í þriðja sæti ítölsku A-deildarinnar með 55 stig, tíu stigum minna en topplið Inter Mílanó.

Zidane hefur verið orðaður við brottför frá Real Madrid að undanförnu en margir spá því að Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þjóðverja, muni taka við spænska liðinu þegar hann lætur af störfum hjá Þjóðverjum eftir EM í sumar.

Zidane hefur einnig verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá franska landsliðinu en hann hefur þrívegis gert Real Madrid að Evrópumeisturum og tvívegis að Spánarmeisturum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert