Grunur um smit í þýska landsliðinu

Joachim Löw og leikmenn þýska landsliðsins.
Joachim Löw og leikmenn þýska landsliðsins. AFP

Grunur er um að leikmaður þýska landsliðsins í knattspyrnu hafi greinst með kórónuveiruna en liðið mætir Íslandi í fyrstu umferð í undankeppni heimsmeistaramótsins í Duisburg í kvöld.

Það er Bild sem segir frá þessu en samkvæmt upplýsingum þýska miðilsins er það Jonas Hofmann, 28 ára miðjumaður Mönchengladbach,  sem fékk jákvætt veirupróf. Samkvæmt fréttinni er uggur í þýska hópnum og hefur liðsfundi, sem átti að fara fram í hádeginu, verið frestað. 

Ekki liggur fyrir hvert framhaldið verður en samkvæmt fréttinni er hópurinn í úrvinnslusóttkví sem stendur. Samkvæmt reglugerð FIFA vegna kórónuveirufaraldursins þurfa lið að mæta til leiks svo lengi sem þau hafa 13 leikfæra leikmenn.

„Við vitum ekki meira en það sem hefur komið fram í fréttum akkúrat núna,“ sagði Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi KSÍ við mbl.is rétt í þessu. „Við höldum bara okkar striki eins og er, það eru komin á samtöl milli aðila sambandanna og vonandi vitum við eitthvað meira á næstu klukkutímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert