Leikur Íslands og Þýskalands í undankeppni HM í knattspyrnu verður spilaður í kvöld þrátt fyrir að leikmaður þýska liðsins hafi greinst með kórónuveiruna í morgun.
Þetta hefur þýski miðillinn Kicker eftir Jens Grittner, talsmanni þýska knattspyrnusambandsins, sem fullyrðir að leikurinn geti farið fram eftir að sambandið ræddi við heilbrigðisyfirvöld í Düsseldorf.
Bild sagði frá því í morgun að miðjumaðurinn Jonas Hofmann væri með veiruna og þá kom fram að hann æfði með þýska hópnum í gærkvöldi. Aðrir leikmenn fóru strax í úrvinnslusóttkví og er ekki talið að veiran hafi náð að dreifa sér milli hópsins.
Framkvæmdastjóri þýska liðsins, Olivier Bierhoff, hafði áður sagt í hádeginu að hann væri bjartsýnn á að hægt yrði að spila leikinn.