Suárez aftur til Liverpool?

Luis Suárez hefur gert gott mót með Atlético Madríd í …
Luis Suárez hefur gert gott mót með Atlético Madríd í vetur. AFP

Úrúg­væski knatt­spyrnumaður­inn Luis Su­árez gæti verið á leiðinni aftur til enska félagsins Liverpool þar sem hann spilaði við góðan orðstír fyrir nokkrum árum síðan.

Úrúgvæinn er orðinn 34 ára gamall og gekk til liðs við spæska liðið Atlético Madríd síðasta sumar frá Barcelona og hefur markaskorarinn engu gleymt. Hann hefur skorað 19 deildarmörk í 25 leikjum fyrir Atlético sem er á toppi spænsku deildarinnar.

Þar áður skoraði Suárez 147 mörk í 191 deildarleik fyrir Barcelona á árunum 2014-20 en þangað var hann einmitt keyptur frá Liverpool. Í Bítlaborginni var Úrúgvæinn afar vinsæll, skoraði 69 mörk í 110 leikjum á fjórum árum.

Spænski miðillinn Fichajes greinir frá því að Englandsmeistararnir hafi áhuga á að bæta við sig reynslumiklum markaskorara en samband félagsins við Suárez er enn gott. Þá var hann í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins og ekki ólíklegt að þeir myndu fagna því að fá sóknarmanninn til baka, sérstaklega eftir erfitt tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert