Alfreð Finnbogason landsliðsmaður í knattspyrnu lék í dag sinn fyrsta leik í tvo mánuði þegar hann kom við sögu í æfingaleik Augsburg gegn Heidenheim.
Alfreð varð fyrir meiðslum á kálfa í lok janúar en hafði þá síðasta leikið með Augsburg gegn Union Berlín 23. janúar. Hann hefur fyrir vikið misst af síðustu átta deildarleikjum Augsburg ásamt því að hann gat ekki tekið þátt í yfirstandandi verkefni íslenska landsliðsins sem þessa stundina er á leið til Jerevan í Armeníu.
Alfreð lék síðustu 20 mínúturnar í dag en Augsburg vann 3:1 sigur á Heidenheim sem er í sjöunda sæti B-deildarinnar.