Noregur vann í gær 3:0-sigur á Gíbraltar í undankeppni heimsmeistaramóts karla í fótbolta. Erling Braut Haaland, einn besti framherji heims um þessar mundir, var ekki á meðal markaskorara norska liðsins.
Aymen Mouelhi, varnarmaður Gíbraltar, viðurkennir að hann hafi búist við meiru af Haaland. „Hann var einn af hættulegustu mönnum Norðmanna en ég bjóst við meiru. Það héldu margir að hann myndi skora fjögur eða fimm mörk,“ sagði Mouelhi við Eurosport.
„Við reyndum að loka á hann, en það er erfitt því hann er stór og sterkur. Það þarf að einbeita sér að hraðanum á honum frekar en stærðinni,“ bætti Mouelhi við.