Knattspyrnufélög í Brasilíu hafa samþykkt lagabreytingu í deildarkeppninni þar í landi, en nú má hvert félag aðeins segja upp einum knattspyrnustjóra á hverju tímabili.
Mikil velta er á knattspyrnustjórum í efstu deild í Brasilíu og hafa félög gjarnan rekið 4-5 stjóra á hverju tímabili og er því um afar stóra breytingu að ræða.
Vilji félag reka fleiri en einn stjóra á sama tímabilinu verður einhver sem hefur verið innan félagsins í að minnsta kosti sex mánuði að taka við.
Brasilíska knattspyrnusambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að ástæða breytinganna sé sú að það sama á að gilda um knattspyrnustjóra og leikmenn þegar kemur að félagaskiptum.