Þriðju bestu félagaskipti Svíþjóðar

Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með Kristianstad í Svíþjóð á komandi …
Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með Kristianstad í Svíþjóð á komandi keppnistímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveindís Jane Jónsdóttir er í þriðja sæti á lista Damallsvenskan Nyheter yfir bestu félagaskipti ársins í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna.

Sóknarkonan, sem er einungis 19 ára gömul, gekk til liðs við þýska 1. deildarfélagið Wolfsburg í desember á síðasta ári en var lánuð til Kristianstand fyrir komandi keppnistímabil.

Sveindís mun því leika í sænsku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni með Kristianstad á komandi tímabili og hefur strax vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í æfingaleikjum undirbúningstímabilsins.

„Gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður sem er strax byrjuð að stimpla sig inn í Svíþjóð,“ segir meðal annars í umfjöllun um Sveindísi.

„Sveindís verður lykilkona í liði Kristianstad á tímabilinu en hún er bæði snögg, getur kastað langt og góð í að klára færin sín,“ segir ennfremur í umfjöllun Damallsvenskan Nyheter.

Sveindís er ekki eini Íslendingurinn á listanum því Hallbera Guðný Gísladóttir er í fimmtánda sæti listans en hún gekk til liðs við nýliða AIK frá Val í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert