Ásgeir Sigurvinsson, fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu og atvinnumaður í Þýskalandi og Belgíu, hefði viljað sjá þá Jón Dag Þorsteinsson og Willum Þór Willumsson í íslenska A-landsliðshópnum fyrir leikina gegn Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.
Jón Dagur og Willum Þór voru á meðal bestu leikmanna Íslands í 4:1-tapi gegn Rússlandi í lokakeppni EM U21-árs landsliða í Györ í Ungverjalandi í gær.
Þetta var fyrsti leikur Íslands í lokakeppninni en síðar um kvöldið mætti A-landsliðið Þýskalandi í Duisburg í fyrsta leik sínum í undankeppni HM þar sem Þjóðverjar unnu öruggan 3:0-sigur.
„Ég hefði nú viljað sjá þá báða með A-landsliðinu,“ sagði Ásgeir við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun um þá Jón Dag og Willum.
„Willum er hörkuleikmaður með góða yfirsýn og svona drengur getur spilað með góðum leikmönnum og er tilbúinn í næsta skref,“ bætti Ásgeir meðal annars við.