Knattspyrnumaðurinn Kemar Roofe verður fyrir kynþáttaníði á hverjum einasta degi eftir að hann fékk rautt spjald í leik með skoska liðinu Rangers gegn Slavia Prag frá Tékklandi í Evrópudeildinni fyrr í mánuðinum.
„Ég verð enn fyrir kynþáttaníði á hverjum einasta degi á samfélagsmiðlum. Ég fæ gríðarlegt magn af skilaboðum. Hvað get ég gert? Ég ætla ekki að hætta að fara á samfélagsmiðla,“ sagði Roofe við Sky.
„Fyrirtækin sem stjórna samfélagsmiðlum verða að stjórna þessu. Það er of auðvelt fyrir fólk að fara á samfélagsmiðla og senda niðrandi skilaboð. Sumt fólk ræður ekki við skilaboð eins og ég fæ, en sem betur fer get ég það. Ég hundsa þessi skilaboð en það geta það ekki allir,“ sagði Roofe.
Roofe lék árið 2011 þrjá leiki með Víkingi Reykjavík að láni.