Annar lykilmaður úr leik hjá Armenum

Henrikh Mkhitarjan leikur ekki gegn Íslandi og sama er að …
Henrikh Mkhitarjan leikur ekki gegn Íslandi og sama er að segja um Gevorg Ghazaryan. AFP

Armenska landsliðið í knattspyrnu verður án tveggja reyndustu leikmanna sinna í leiknum gegn Íslandi í Jerevan í undankeppni heimsmeistaramótsins á morgun.

Henrikh Mkhitarjan, fyrirliði og markahæsti leikmaður Armena frá upphafi, leikmaður Roma og áður með Arsenal, Manchester United og Dortmund, missir af öllum leikjum í þessari landsleikjatörn vegna meiðsla eins og áður hefur komið fram.

Armenska knattspyrnusambandið staðfesti á heimasíðu sinni í dag að miðjumaðurinn reyndi Gevorg Ghazarjan myndi einnig missa af leiknum gegn Íslandi. Hann var ekki með í Liechtenstein á fimmtudaginn en vonir höfðu staðið til þess að hann næði að spila gegn Íslandi.

Ghazarjan, sem er samherji Theódórs Elmars Bjarnasonar hjá Lamia í grísku úrvalsdeildinni, var leikjahæstur og markahæstur með landsliðinu af þeim sem valdir voru í hópinn fyrir þessa landsleikjatörn með 73 landsleiki og 14 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert