Guðrún Arnardóttir, varnarmaður sænska knattspyrnuliðsins Djurgården, skoraði fyrra mark liðsins þegar það tapaði á grátlegan hátt gegn Umeå í riðli 4 í sænsku bikarkeppninni í dag. Sigurmark Umeå kom í uppbótartíma.
Jafntefli hefði nægt Djurgården til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar en með því að stela sigrinum vann Umeå riðilinn og komst þar með í undanúrslitin á kostnað Djurgården.
Eftir að staðan var 0:1 í hálfleik, gestunum í Umeå í vil, jafnaði Guðrún metin með góðum skalla á 54. mínútu.
Á 76. mínútu kom Michaele Wilhelmina svo Djurgården yfir.
10 mínútum síðar jafnaði Umeå hins vegar metin og tryggði sér svo sigurinn á fyrstu mínútu uppbótartíma.